2008-03-19

Hafís

Síðastliðið ár mældist minnsta útbreiðsla hafíss síðan mælingar hófust.  Útbreiðslan miðar við að minnsta kosti 15% hafsvæðisins sé þakið ís.

image Eins og sjá má á myndinni að ofan, var heildarflatarmálið árið 2007 í lágmarki aðeins rétt rúmlega 4 milljón ferkílómetra.  Þetta er langtum minna en meðaltal áranna 1978 - 2007, og helmingi minna en árið 1980 þegar hæðsta gildi á lágmarks-útbreiðslu mældist.

Allar líkur eru á því að lágmarkið haldi áfram að lækka.

Ástæður þess eru:

  • Margra ára ís heldur áfram að þynnast og eyðast.
  • Enda þótt kaldir vetur myndi stóra þekju, eru sumrin oftast nægjanlega heit til að bræða megnið af þeim ís, og sennilega oftast allan þann ís og meira til.

Hafís að sumri gæti því orðið mjög lítill á næstu áratugum og jafnvel horfið alveg á þeim tímaskala.

Sinueldar á Mýrum 2006

Á Íslandi varð mesti skráði sinubruni Íslandssögunnar þegar eldur kom upp á Mýrum vorið 2006, en þar brann svæði sem var um 73 km2 að flatarmáli.

Kort af brunasvæðinu - Þröstur Þ, Borgþór M. og Guðmundur G. Til viðmiðunar má nefna að flatarmál Þingvallarvatns er um 82 km2.

Með úrvinnslu gervitunglamynda og athugunum á jörðu niðri var hægt að rekja framvindu eldanna á Mýrum.

image Nýlega kom upp eldur í mosaþembu á Miðdalsheiði í júní 2007. Þótt brunasvæðið á heiðinni væri lítið (0,09 km2) í samanburði við svæðið á Mýrum var um að ræða einhvern mesta gróðureld í nágrenni Reykjavíkur í seinni tíð.

Frekari rannsókna er þörf til að gera áhættumat vegna slíkra elda í sumarhúsabyggð.  Nauðsynlegt er að afla sem bestrar vitneskju um útbreiðsluhraða elda við þær aðstæður sem ríkja á hverju svæði og meta hvenær hætta er á slíkum eldum.

Unnið er að því að fjármagna slíkar rannsóknir.

Lesa má um Mýraelda í væntanlegum greinum eftir Þröst Þorsteinsson, Borgþór Magnússon og Guðmund Guðjónsson í Náttúrufræðingnum og International Journal of Remote Sensing - nánar síðar.

Technorati Tags:

2008-03-01

Flóð í Afríku

Nú í upphafi árs hafa verið mikil flóð víða í Afríku.


Meðfylgjandi myndir eru frá Mósambik, en þar verða oft flóð á regntímabilinu, sem byrjar í október, nær hámarki í desember og lýkur í apríl. Í upphafi árs 2008 voru töluverð flóð vegna rigninga.


Mozambique_2008


Á þessum myndum, annars vegar frá nóvember 2007 (vinstra megin) og svo janúar 2008 (hægra megin), sést hvernig árnar eru að flæða yfir bakka sína á stóru svæði. Skalinn á myndinni er u.þ.b. 500 km norður-suður (upp-niður).